Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Fróðleikur

Hafsteinn Jónsson sendi okkur smá fróðleik.

Hér er ljósrit úr bók sem skrifin er af Benjamín Sigvaldasini sem ólst upp fyrir norðan. Á síðu 168 og 169 er um Klifshaga og Jón Snorra og Sigríði. á síðu 175 og 176 er um Skinnastað og séra Þorleif. Á síðu 87 byrjar kafli úr lengri sögu af sveitaómaga sem var kallaður Villi, á síðu 90 kemur Jón Snorri við sögu.

  sjá viðhengið : Úrdráttur úr sagnaþáttum

 

Hér er afrit af ljósriti af ljósriti af ljósriti af ættarskránni sem afi og systkini létu gera......

  sjá viðhengið : Gömul ættarskrá

 

Og bróðir hans Bergur sendi minningargrein um Sigríði Tómasdóttur

  sjá viðhengið : Minningargrein um Sigríði Tómasdóttur


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Dagskrá ættarmótsins

Sæl verið þið!

Eins og ykkur er kunnugt um þá stendur ættarmótið frá föstudegi til sunnudags, helgina 4.-6. júlí. Dagskrá ættarmótsins verður með eftirfarandi hætti:
 
Föstudagur
Vonandi verða flestir búnir að koma sér ágætlega fyrir á kvöldi fyrsta dags. Flestir fara borubrattir á röltið og taka í höndina á öðrum og kynna sig. Aðrir halda sig til hlés.
 
Laugardagur
  • Áætlað er að ,,setningarathöfn" verði um kl. 10 að morgni laugardags. Þá verður einhver úr nefndinni vonandi búinn að undirbúa langa og líflega opnunarræðu. Í það minnsta þá verður skautað yfir dagskrá ættarmótsins jafnframt því sem að afhending nafnspjalda fer fram. Af því tilefni þá viljum við hvetja ykkur til þess að senda nöfn allra þeirra sem að mæta sem allra fyrst, þ.m.t. maka og barna.
  • Í kjölfarið verður haldið í skipulagða göngu upp að/á Eldborg en áætlaður göngutími er um ein klukkustund, hvor leið um sig. Þessi dagskrárliður gæti þó færst yfir á sunnudag en það ræðst af veðrinu. Gangan getur jafnvel verið báða dagana.
  • Um kl. 14.00 verður farið í leiki fyrir börn á öllum aldri. Jafnframt er áætlað að börnin fái að fara á hestbak. Það ræðst þó af kostnaði.
  • Skipulögð kvölddagsskrá hefst kl. 19.00 en kveikt verður upp í grillinu kl. 18.30 og getur fólk því byrjað að grilla um hálftíma síðar. Eins og fram hefur komið verðið þið að sjá um ykkur sjálf hvað fæði varðar, þ.e. kjöt á grillið og meðlæti. Við erum þó spennt fyrir því að meðlætið verði sameiginlegt, þ.e. að það verði sett sameiginlegt borð. Þið eruð vinsamlegast beðin um að sleppa grillkartöflum. Hvað drykkjarföng varðar þá mun nefndin sjá um að kaupa kók og appelsín. Þið verðið að sjá um öll önnur drykkjarföng, styrkta sem óstyrkta drykki. Það mun vera frekar lítið um leirtau og hnífapör á staðnum og því viljum við vinsamlegast biðja ykkur um að taka slíkt með ykkur sjálf.
  • Um kvöldið mun Jón Snorri Ásgeirsson stíga á stokk og flytja sögu ættarinnar en Björn bróðir hans hefur verið að tína saman brot héðan og þaðan. Af því tilefni þá viljum við biðja ykkur, sem að eiga sögur af Jóni Snorra og Sigríði, að senda þær á póstfangið jsa@centrum.is Frábært framtak hjá þeim bræðrum.
  • Nefndin hefur ekki í hyggju að standa fyrir annarri skipulagðri dagskrá um kvöldið. Við höfum þó trú á því að í þessum stóra hópi ættingja leynist skemmtikraftur sem að er tilbúinn að ,,koma út úr skápnum" og skemmta okkur hinum. Það má flytja gamansögur (endurminningar) eða flytja tónlist, svo dæmi sé tekið. Einnig viljum við hvetja ykkur til þess að koma með myndaalbúm á ættarmótið.
  • Síðan en ekki síst. Rúsínan í pylsuendanum. Verðlaun verða veitt fyrir frumlegasta hattinn. Ergo. Þema ættarmótsins er hattar.

Sunnudagur
Engin skipulögð dagskrá er fyrir síðasta dag ættarmótsins enda verða vonandi allir þreyttir eftir allt áreitið á laugardeginum. Þó verður e.t.v. farið í gönguferð upp að/á Eldborg, eins og fram hefur komið.
 
Tekið skal fram að við í ættarmótsnefndinni höfum enga reynslu af skipulagningu viðburðar sem þessa. Við þiggjum því alla aðstoð og ráðleggingar og ef að þið viljið skemmta okkur hinum er það vel þegið.
 
Þess skal getið að tveir meðlimir ættarmótsnefndarinnar, Karen og Gréta, eru á leiðinni erlendis og því þýðir ekki að senda þeim tölvupóst.

Í lokin viljum við ítreka það við ykkur að greiða staðfestingargjaldið og vísast til fyrri tölvupósta í því sambandi sem og á heimasíðu ættarmótsins, jonogsigridur.blog.is

Með kveðju,
ættarmótsnefndin

Þátttaka

Kæru ættingjar!

Eins og kom fram í tölvupósti þann 1. maí sl. er fyrirhugað ættarmót niðja Jóns Snorra Jónssonar (1857-1931) og Sigríðar Tómasdóttur (1876-1958) að Snorrastöðum, helgina 4.-6. júlí.

Einhvers misskilnings virðist hafa gætt um það hvernig tilkynna skuli um þátttöku á ættarmótið. Þátttöku á að tilkynna til einhvers nefndarmeðlima en ekki á heimasíðunni. Þrátt fyrir þennan misskilning þá lítur allt út fyrir rífandi þátttöku en nú þegar hafa u.þ.b. 110 fullorðnir (16 ára og eldri) tilkynnt sig og eru sífellt fleiri að bætast við. Nöfn þeirra koma fram hér að neðan og eru viðkomandi vinsamlegast beðnir um að yfirfara upplýsingar um sig. Eins eru þeir sem telja sig hafa tilkynnt um þátttöku beðnir um að athuga hvort að nöfn þeirra komi ekki fram í listanum.


Eins og fram kemur á heimasíðunni þarf að greiða fast gjald fyrir aðstöðuna. Nefndin hefur ákveðið að staðfestingargjaldið sé 2.000
kr. fyrir hvern fullorðinn (16 ára og eldri) en það ber að inna af hendi í síðasta lagi 3. júní nk. inn á reikninginn 1113-26-011382, kt. 281066-5879. Staðfestingu á greiðslu ber að senda á vth@staki.is, með tilvísun til nafns niðja. Endanlegt verð verður ákveðið fljótlega en það ræðst af endanlegum þátttakendafjölda. Ef að allir þeir sem tilkynnt hafa um þátttöku greiða staðfestingargjaldið verður ekki um frekari gjaldtöku að ræða. Innifalið í verðinu er gisting í tvær nætur, frábær aðstaða að öðru leyti, góður félagsskapur, sól og hiti og margt fleira. Nefndin hefur ákveðið að skipuleggja leiki fyrir börnin og þarf hún að leggja út fyrir smávægilegum kostnaði vegna þess. Auk þess mun nefndin leggja út fyrir kol á grillið o.fl. Ákveðið hefur verið að sama gjaldið er fyrir alla, þ.e. hvort sem að fólk gistir í herbergjum inní húsinu eða á tjaldstæðinu. Ekki er gerður greinarmunur á því hvort að fólk gistir eina nótt eða tvær eða kýs að gista annars staðar. Einfalt og gott. Þeir sem að kjósa gistingu í herbergjunum geta gert það með því að senda honum Vigfúsi tölvupóst á netfangið vth@staki.is, eftir að staðfestingargjaldið hefur verið greitt. Í herbergjunum eru 24 rúm en auk þess er hægt að koma þar fyrir dýnum. Í salnum eru kojur fyrir 12-15 manns. Borðpláss er fyrir 150 manns. Þannig á að fara vel um alla.

Að lokum vill nefndin hvetja alla til þess að kynna sér heimasíðu ættarmótsins en þar er m.a. hægt að skrifa færslur í dagbók. Á heimasíðunni er einnig myndaalbúm. Til þess að setja myndir þar inn verður að senda þær í tölvupósti til Vigfúsar en hann mun síðan sjá um að setja þær inn á síðuna. Ef að þið hafið tök á því þá megið þið gjarnan skanna inn gamlar myndir. Ef að þið eigið ekki skanner þá er næsta víst að einn slíkur leynist á vinnustað ykkar. Einnig viljum við hvetja ykkur til þess að fara inn á heimasíðu Snorrastaða,
snorrastadir.is.

Með kærri kveðju,

ættarmótsnefndin.


Bjargarstígur 17

Hérna er hægt að nálgast fróðleik frá Minjasafni reykjavíkur um Bjargarstíg og nágrenni

             http://www.videyjarstofa.is/skyrslur/skyrsla_110.pdf

Síðan er hér fyrir neðan grein sem birtist í í Fasteignablaði Mbl Þriðjudaginn 26. febrúar, 2002 um Bjargarstíg 17.

Tekist hefur vel að halda gamla stílnum.

Á húsinu er skilti, sem á stendur
Tekist hefur vel að halda gamla stílnum.  
Eins og mörg önnur hús sem reist voru fyrir aldamótin nítján hundruð hefur verið byggt við bæinn í nokkrum áföngum. Freyja Jónsdóttir fjallar hér um Bjargarstíg 17, sem er gamall steinbær, að hluta til byggður fyrir 1882.

 

Upphaflega var bærinn nefndur Heilmannsbær en þar bjó Jóhann Heilmann með fjölskyldu sína og er talið að hann hafi byggt bæinn.

Í kirkjubókum frá árinu 1882 eru taldir til heimilis í Heilmannsbæ: Jóhann Heilmann 46 ára, Dorotea 44 ára (sennilega kona hans), og þrjú börn, Guðrún 14 ára, Davíð 6 ára og Soffía Kristjana þriggja ára.

Í október 1895 verður Vilhelm Heilmann, sonur Jóhanns Heilmann, eigandi að húsinu. Þá er lóðin mæld upp og aukið við hana svo að hún verður 43 1/2 x 69 álnir. Sama ár fæst leyfi fyrir því að lengja bæinn um 2 álnir og byggja skúr.

Í fyrstu brunavirðingunni á eigninni sem gerð var 1896 segir: "Húsið er með hlöðnum veggjum upp að risstöfum, sem eru úr bindingi og járnklæddir; járnþak er á húsinu. Niðri eru tvö herbergi og eldhús með tvöföldum loftum. Herbergin eru þiljuð og máluð. Í öðru þeirra er eldavél og ofn. Uppi eru tvö herbergi, þiljuð og máluð."

Árið 1901 afsalar Jóhann Heilmann hálfri eigninni til barna sinna, Davíðs, Guðrúnar og Soffíu Kristjönu. Á sama tíma afsalar hann Davíð Heilmann hinum helmingi eignarinnar.

Árið 1906, kaupir Eyvindur Árnason hluta af lóð Heilmannsbæjar og byggir á henni íbúðarhús. Sama ár er tekin ræma af lóðinni undir Óðinsgötu.

 

Viðbygging úr steini

Þorleifur Jónsson verður eigandi að Heilmannsbæ 4. janúar 1916. Í brunavirðingu frá 1926 er þess getið að viðbygging sé við norðurhlið aðalhússins, úr steini með járnþaki á borðasúð með pappa í milli. Þar er eitt íbúðarherbergi, geymsluklefi, salerni og tveir gangar. Allt þiljað innan og herbergið veggfóðrað, gangar og geymsla máluð.

Í september 1938 fær Þorleifur leyfi til þess að breyta gluggum á bæ sínum og árið 1941 byggir hann skúr úr steinsteypu við húsið, 5,12 ferm.

Bjargarstígur 17 (Heilmannsbær) var brunavirtur 1943, þar segir m.a. að húsið sé einlyft, byggt úr grásteini upp að risstöfum sem eru úr bindingi, járnklæddir. Þak er úr borðasúð, pappa og járni. Á aðalhæðinni eru tvö herbergi, eldhús og gangur, allt vírlagt, múrhúðað og málað. Í risi eru tvö herbergi og gangur sem allt er málað. Viðbygging við norðurhlið bæjarins er úr steinsteypu, með járnþaki á borðasúð, með pappa í milli. Þar eru tvö herbergi, snyrting og gangur. Allt þiljað innan og herbergin veggfóðruð og máluð.

Árið 1956 var fyrirhugað hjá bæjarráði Reykjavíkur að byggja þrílyft hús á lóðinni og rífa Heilmannsbæ. Af einhverjum ástæðum varð ekki úr þeirri áætlun, enda hefði það verið mikill skaði að missa þennan gamla steinbæ.

Árið 1964 selur Þorleifur Jónsson hálfa eignina Þorbergi Jónssyni sem sama ár byggir anddyri úr timbri við bæinn. Á árabilinu 1970 til 1977 verða nokkur eigendaskipti á bænum þar til hjónin Ingibjörg Valdimarsdóttir og Höskuldur Ottó Guðmundsson kaupa hann.

Höskuldur Ottó var frá Randversstöðum í Breiðdal. Hann var maður ljóðelskur og góður hagyrðingur, eftir hann kom út ljóðabók. Ingibjörg Valdimarsdóttir er frá Breiðafjarðareyjum og fæddist í Svefneyjum, en fluttist til Rúfeyja þriggja ára gömul og var þar til sautján ára aldurs.

Höskuldur Ottó stundaði verkamannavinnu og um árabil báru hjónin í Hallmannsbæ út dagblöðin í Þingholtunum. Ingibjörg rak litla prjónastofu í viðbyggingunni norðan við húsið og hún er þekkt fyrir vandaða og fallega vinnu. Í mörg ár var Höskuldur Ottó sjúklingur en dvaldi á heimili sínu. Ásamt því að hjúkra manni sínum sá Ingibjörg fyrir heimilinu með prjónaskap.

 

Útlit glugga fært til fyrra horfs

Ingibjörg gerði mikið fyrir steinbæinn sinn og vann að mestu sjálf við viðgerðirnar. Hún breytti útliti glugganna og færði til fyrra horfs. Herbergjaskipan er svipuð og að framan greinir í brunabótamati frá árinu 1943. Þó hafa þær breytingar orðið að stofan var stækkuð með því sameina hana litla herberginu inn af henni.

Eldhúsið er óvenjulega stórt í svo gömlu húsi og er með borðkrók. Efri skáparnir falla inn í vegginn sem er þykkur og var útveggur þar til viðbyggingin norðan við húsið var gerð. Í viðbyggingunni er stórt herbergi sem prjónað var í, snyrting, gangur og rúmgott þvottahús.

Uppi tvö góð herbergi og rúmgóður gangur. Á milli forstofu og gangs er falleg gömul hurð með gleri. Ingibjörgu hefur tekist vel að halda gamla stílnum eins og hægt er. Á húsinu er brotið þak, svokallað mansardþak.

Árið 1997 selur Ingibjörg Valdimarsdóttir Sigurbjörgu Jóhannesdóttur húsið sem er núverandi eigandi þess. Sigurbjörg hefur lagfært ýmislegt innandyra og gert svefnherbergi þar sem prjónastofan var. Hún setti skilti á húsið sem á stendur "Heilmannsbær".

Heimildir: Borgarskjalasafn, bruna-

virðingar, b-skjöl og sóknarmannatöl.

 


Ættarmót 4. - 6. júlí 2008

Fyrirhugað er að niðjar Jóns Snorra Jónssonar (1857-1931) og Sigríðar Tómasdóttur (1876-1958), hittist á ættarmóti en það verður haldið í sumar að Snorrastöðum í Kolbeinsstaðahreppi, helgina 4.-6. júlí 2008. Þeir sem ekki vita hvar mótsstaður er eða vilja fá frekari upplýsingar um hann geta heimsótt heimasíðu staðarins, http://www.snorrastadir.is/ Eins og þar gefur á að líta er gistiaðstaða til fyrirmyndar, jafnt úti sem inni og góð aðstaða til leikja fyrir ungviðið á móttsstað. Eins er stutt til Borgarness og ekki er skortur á gistiaðstöðu í nágrenni við Snorrastaði.

Áætlað er að hver fjölskylda komi með mat á grillið og meðlæti en þó er ekki útilokað að slegið verði upp sameiginlegu grilli fyrir alla þátttakendur. Leigan fyrir aðstöðu er fast gjald en hlutur hvers og eins ræðst af þátttakendafjölda.

Niðjatal var gefið út 1994 og eðli málsins samkvæmt hefur margt gerst síðan þá og viljum við því biðja alla um að senda upplýsingar um nöfn og fæðingardaga barna sem litið hafa dagsins ljós síðan þá auk upplýsinga um maka. Einnig væri gott ef við fengjum netföng frá sem flestum.

Áhugi fyrir ættarmótinu virðist vera mikill og margir spenntir fyrir að hitta ættingja sem þeir hafa ekki séð í mörg ár. Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta.

Þess er óskað að tilkynningar um þátttöku, uppfærðar upplýsingar um fjölskyldustöðu og netföng berist eigi síðar en 15. maí nk.

Nefndin

Höfundur

Ættarmót 2008
Ættarmót 2008

Vefurinn er settur upp fyrir ættarmót niðja Jóns Snorra Jónssonar og Sigríðar Tómasdóttur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband