Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Þátttaka

Kæru ættingjar!

Eins og kom fram í tölvupósti þann 1. maí sl. er fyrirhugað ættarmót niðja Jóns Snorra Jónssonar (1857-1931) og Sigríðar Tómasdóttur (1876-1958) að Snorrastöðum, helgina 4.-6. júlí.

Einhvers misskilnings virðist hafa gætt um það hvernig tilkynna skuli um þátttöku á ættarmótið. Þátttöku á að tilkynna til einhvers nefndarmeðlima en ekki á heimasíðunni. Þrátt fyrir þennan misskilning þá lítur allt út fyrir rífandi þátttöku en nú þegar hafa u.þ.b. 110 fullorðnir (16 ára og eldri) tilkynnt sig og eru sífellt fleiri að bætast við. Nöfn þeirra koma fram hér að neðan og eru viðkomandi vinsamlegast beðnir um að yfirfara upplýsingar um sig. Eins eru þeir sem telja sig hafa tilkynnt um þátttöku beðnir um að athuga hvort að nöfn þeirra komi ekki fram í listanum.


Eins og fram kemur á heimasíðunni þarf að greiða fast gjald fyrir aðstöðuna. Nefndin hefur ákveðið að staðfestingargjaldið sé 2.000
kr. fyrir hvern fullorðinn (16 ára og eldri) en það ber að inna af hendi í síðasta lagi 3. júní nk. inn á reikninginn 1113-26-011382, kt. 281066-5879. Staðfestingu á greiðslu ber að senda á vth@staki.is, með tilvísun til nafns niðja. Endanlegt verð verður ákveðið fljótlega en það ræðst af endanlegum þátttakendafjölda. Ef að allir þeir sem tilkynnt hafa um þátttöku greiða staðfestingargjaldið verður ekki um frekari gjaldtöku að ræða. Innifalið í verðinu er gisting í tvær nætur, frábær aðstaða að öðru leyti, góður félagsskapur, sól og hiti og margt fleira. Nefndin hefur ákveðið að skipuleggja leiki fyrir börnin og þarf hún að leggja út fyrir smávægilegum kostnaði vegna þess. Auk þess mun nefndin leggja út fyrir kol á grillið o.fl. Ákveðið hefur verið að sama gjaldið er fyrir alla, þ.e. hvort sem að fólk gistir í herbergjum inní húsinu eða á tjaldstæðinu. Ekki er gerður greinarmunur á því hvort að fólk gistir eina nótt eða tvær eða kýs að gista annars staðar. Einfalt og gott. Þeir sem að kjósa gistingu í herbergjunum geta gert það með því að senda honum Vigfúsi tölvupóst á netfangið vth@staki.is, eftir að staðfestingargjaldið hefur verið greitt. Í herbergjunum eru 24 rúm en auk þess er hægt að koma þar fyrir dýnum. Í salnum eru kojur fyrir 12-15 manns. Borðpláss er fyrir 150 manns. Þannig á að fara vel um alla.

Að lokum vill nefndin hvetja alla til þess að kynna sér heimasíðu ættarmótsins en þar er m.a. hægt að skrifa færslur í dagbók. Á heimasíðunni er einnig myndaalbúm. Til þess að setja myndir þar inn verður að senda þær í tölvupósti til Vigfúsar en hann mun síðan sjá um að setja þær inn á síðuna. Ef að þið hafið tök á því þá megið þið gjarnan skanna inn gamlar myndir. Ef að þið eigið ekki skanner þá er næsta víst að einn slíkur leynist á vinnustað ykkar. Einnig viljum við hvetja ykkur til þess að fara inn á heimasíðu Snorrastaða,
snorrastadir.is.

Með kærri kveðju,

ættarmótsnefndin.


Bjargarstígur 17

Hérna er hægt að nálgast fróðleik frá Minjasafni reykjavíkur um Bjargarstíg og nágrenni

             http://www.videyjarstofa.is/skyrslur/skyrsla_110.pdf

Síðan er hér fyrir neðan grein sem birtist í í Fasteignablaði Mbl Þriðjudaginn 26. febrúar, 2002 um Bjargarstíg 17.

Tekist hefur vel að halda gamla stílnum.

Á húsinu er skilti, sem á stendur
Tekist hefur vel að halda gamla stílnum.  
Eins og mörg önnur hús sem reist voru fyrir aldamótin nítján hundruð hefur verið byggt við bæinn í nokkrum áföngum. Freyja Jónsdóttir fjallar hér um Bjargarstíg 17, sem er gamall steinbær, að hluta til byggður fyrir 1882.

 

Upphaflega var bærinn nefndur Heilmannsbær en þar bjó Jóhann Heilmann með fjölskyldu sína og er talið að hann hafi byggt bæinn.

Í kirkjubókum frá árinu 1882 eru taldir til heimilis í Heilmannsbæ: Jóhann Heilmann 46 ára, Dorotea 44 ára (sennilega kona hans), og þrjú börn, Guðrún 14 ára, Davíð 6 ára og Soffía Kristjana þriggja ára.

Í október 1895 verður Vilhelm Heilmann, sonur Jóhanns Heilmann, eigandi að húsinu. Þá er lóðin mæld upp og aukið við hana svo að hún verður 43 1/2 x 69 álnir. Sama ár fæst leyfi fyrir því að lengja bæinn um 2 álnir og byggja skúr.

Í fyrstu brunavirðingunni á eigninni sem gerð var 1896 segir: "Húsið er með hlöðnum veggjum upp að risstöfum, sem eru úr bindingi og járnklæddir; járnþak er á húsinu. Niðri eru tvö herbergi og eldhús með tvöföldum loftum. Herbergin eru þiljuð og máluð. Í öðru þeirra er eldavél og ofn. Uppi eru tvö herbergi, þiljuð og máluð."

Árið 1901 afsalar Jóhann Heilmann hálfri eigninni til barna sinna, Davíðs, Guðrúnar og Soffíu Kristjönu. Á sama tíma afsalar hann Davíð Heilmann hinum helmingi eignarinnar.

Árið 1906, kaupir Eyvindur Árnason hluta af lóð Heilmannsbæjar og byggir á henni íbúðarhús. Sama ár er tekin ræma af lóðinni undir Óðinsgötu.

 

Viðbygging úr steini

Þorleifur Jónsson verður eigandi að Heilmannsbæ 4. janúar 1916. Í brunavirðingu frá 1926 er þess getið að viðbygging sé við norðurhlið aðalhússins, úr steini með járnþaki á borðasúð með pappa í milli. Þar er eitt íbúðarherbergi, geymsluklefi, salerni og tveir gangar. Allt þiljað innan og herbergið veggfóðrað, gangar og geymsla máluð.

Í september 1938 fær Þorleifur leyfi til þess að breyta gluggum á bæ sínum og árið 1941 byggir hann skúr úr steinsteypu við húsið, 5,12 ferm.

Bjargarstígur 17 (Heilmannsbær) var brunavirtur 1943, þar segir m.a. að húsið sé einlyft, byggt úr grásteini upp að risstöfum sem eru úr bindingi, járnklæddir. Þak er úr borðasúð, pappa og járni. Á aðalhæðinni eru tvö herbergi, eldhús og gangur, allt vírlagt, múrhúðað og málað. Í risi eru tvö herbergi og gangur sem allt er málað. Viðbygging við norðurhlið bæjarins er úr steinsteypu, með járnþaki á borðasúð, með pappa í milli. Þar eru tvö herbergi, snyrting og gangur. Allt þiljað innan og herbergin veggfóðruð og máluð.

Árið 1956 var fyrirhugað hjá bæjarráði Reykjavíkur að byggja þrílyft hús á lóðinni og rífa Heilmannsbæ. Af einhverjum ástæðum varð ekki úr þeirri áætlun, enda hefði það verið mikill skaði að missa þennan gamla steinbæ.

Árið 1964 selur Þorleifur Jónsson hálfa eignina Þorbergi Jónssyni sem sama ár byggir anddyri úr timbri við bæinn. Á árabilinu 1970 til 1977 verða nokkur eigendaskipti á bænum þar til hjónin Ingibjörg Valdimarsdóttir og Höskuldur Ottó Guðmundsson kaupa hann.

Höskuldur Ottó var frá Randversstöðum í Breiðdal. Hann var maður ljóðelskur og góður hagyrðingur, eftir hann kom út ljóðabók. Ingibjörg Valdimarsdóttir er frá Breiðafjarðareyjum og fæddist í Svefneyjum, en fluttist til Rúfeyja þriggja ára gömul og var þar til sautján ára aldurs.

Höskuldur Ottó stundaði verkamannavinnu og um árabil báru hjónin í Hallmannsbæ út dagblöðin í Þingholtunum. Ingibjörg rak litla prjónastofu í viðbyggingunni norðan við húsið og hún er þekkt fyrir vandaða og fallega vinnu. Í mörg ár var Höskuldur Ottó sjúklingur en dvaldi á heimili sínu. Ásamt því að hjúkra manni sínum sá Ingibjörg fyrir heimilinu með prjónaskap.

 

Útlit glugga fært til fyrra horfs

Ingibjörg gerði mikið fyrir steinbæinn sinn og vann að mestu sjálf við viðgerðirnar. Hún breytti útliti glugganna og færði til fyrra horfs. Herbergjaskipan er svipuð og að framan greinir í brunabótamati frá árinu 1943. Þó hafa þær breytingar orðið að stofan var stækkuð með því sameina hana litla herberginu inn af henni.

Eldhúsið er óvenjulega stórt í svo gömlu húsi og er með borðkrók. Efri skáparnir falla inn í vegginn sem er þykkur og var útveggur þar til viðbyggingin norðan við húsið var gerð. Í viðbyggingunni er stórt herbergi sem prjónað var í, snyrting, gangur og rúmgott þvottahús.

Uppi tvö góð herbergi og rúmgóður gangur. Á milli forstofu og gangs er falleg gömul hurð með gleri. Ingibjörgu hefur tekist vel að halda gamla stílnum eins og hægt er. Á húsinu er brotið þak, svokallað mansardþak.

Árið 1997 selur Ingibjörg Valdimarsdóttir Sigurbjörgu Jóhannesdóttur húsið sem er núverandi eigandi þess. Sigurbjörg hefur lagfært ýmislegt innandyra og gert svefnherbergi þar sem prjónastofan var. Hún setti skilti á húsið sem á stendur "Heilmannsbær".

Heimildir: Borgarskjalasafn, bruna-

virðingar, b-skjöl og sóknarmannatöl.

 


Höfundur

Ættarmót 2008
Ættarmót 2008

Vefurinn er settur upp fyrir ættarmót niðja Jóns Snorra Jónssonar og Sigríðar Tómasdóttur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband